miðvikudagur 20. júní 2007

Fimmtán umsóknir um ný störf í Háskólasetri

Á dögunum voru auglýstar þrjár nýjar stöður hjá Háskólasetri Vestfjarða: Verkefnisstjóri, sérfræðingur á alþjóðasviði og fagstjóri á sviði haf- og strandsvæðastjórnunnar. Um er að ræða þrjú ný stöðugildi sérfræðinga í Háskólasetri Vestfjarða, sem eru hluti af tillögu Vestfjarðanefndar.

Starfssvið sérfræðinganna verður að efla starfsemi Háskólasetursins og finna grundvöll fyrir stofnanir og fyrirtæki á Vest­fjörð­um að sameinast um rannsóknar-, þróunar- og nýsköpunarverkefni.

Sérfræðingur á alþjóðasviði vinnur með stofnunum og fyrirtækjum á svæðinu í þróun verkefna og gerð umsókna í innlenda og erlenda sjóði.

Verkefnastjórinn hefur umsjón með fjölda verkefna á vegum Háskólasetursins, þar á meðal eru Field Schools og sumarháskólar.

Fagstjóri á sviði haf- og strandsvæðastjórnunar kemur að faglegri stjórnun nýrrar alþjóðlegrar námsleiðar á meistarastigi í haf- og strandsvæðastjórnun, sem Háskólasetur undirbýr í samvinnu við háskóla.

Umsóknarfresturinn rann út þann 18.júní og hafa samtals borist 15 umsóknir, þar af 10 af höfuðborgarsvæðinu. Fimm hafa sótt um stöðu sérfræðings á alþjóðasviði, átta um stöðu verkefnisstjóra og tveir um stöðu fagstjóra.