þriðjudagur 24. apríl 2012

Ferðaþjónusta og nýting strandsvæða

Miðvikudaginn 25. apríl fara fram tvær meistaraprófskynningar útskriftarnema í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Bæði verkefnin fjalla um vestfirsk málefni . Annarsvegar mun Alex Elliott kynna ritgerð sína sem fjallar um möguleika ferðaþjónustu á Vestfjörðum og hinsvegar mun Þórir Örn Guðmundsson kynna ritgerð sína um nýtingu og skipulag strandsvæða. Kynningarnar fara fram í stofu 1-2 í Háskólasetrinu og hefjast kl. 16:00.

Ritgerð Þóris Arnar Guðmundssonar ber titilinn Föðurland vort hálft er hafið: Áhrif nýtingaráætlunar fyrir strandsvæði Vestfjarða á umhverfi notendur og íbúa. Í ritgerðinni er fjallað um nýtingu strandsvæða Vestfjarða frá upphafi til dagsins í dag, ásamt íbúaþróun svæðisins síðastliðin 100 ár. Einnig er fjallað um aðferðir sem aðrar þjóðir hafa beitt við stjórnun strandsvæða og sérstaklega hugað að Noregi og Hjaltlandi hvað það varðar. Í því skyni að greina afsöðu hagsmunaaðila á Vestfjörðum til framtíðar fyrirkomulags á stjórnun strandsvæða svæðisins var framkvæmd könnun þeirra á meðal. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að full þörf er á nýtingaráætlun fyrir strandsvæði Vestfjarða sem byggir á því að viðhalda vistfræðilegum eiginleikum strandsvæðanna og nýtingu samkvæmt hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Með þessu móti verður nýtingin markvissari, ný atvinnustarfsemi með fjölbreytt störf verður til og þannig má auka efnahagslega hagsæld og bæta búsetuskilyrði Vestfjarða.


Leiðbeinandi Þóris Arnar er Gunnar Páll Eydal umhverfisfræðingur hjá Teiknostofunni Eik á Ísafirði og prófdómari er Sigríður Kristjánsdóttir, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Alex Elliott kynnir einnig ritgerð sína Economic and environmental sustainability in coastal rural tourism development: a case study on The Nauteyri Project in the Westfjords of Iceland. Útgangspunktur ritgerðarinnar er þróun sjálfseingarstofnunarinnar The Nauteyri Project, sem var ætlað að setja á fót sjálfbæra ferðaþjónustu, náttúruverndarsvæði, umhverfis- og félagsfræðileg rannsóknartækifæri, og fræðslu um umhverfisvitund á Nauteyri við Ísafjarðardjúp. The Nauteyri Project fékk mikinn stuðning, en tókst ekki að afla nægjanlegs fjármagns til að af því gæti orðið. Rannsóknarspurningar verkefnisins eru mikilvægar fyrir alla ferðaþjónustu á Vestfjörðum en þær tengjast sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu á svæðinu, hve langt beri að ganga í að þróa ferðaþjónustu sem eina af megin stoðum efnahagslífsins og hvernig ferðaþjónust á Vestfjörðum ætti að vera skipulögð og fjármögnuð. Tíu möguleikar tileflingar ferðaþjónustu á Vestfjörðum eru setttir fram með hliðsjón af þeirri viðskiptaáætlun sem The Nauteyri Project byggði á og reynslunni af þeirri tilraun að koma því verkefni á laggirnar á svæðinu.

Leiðbeinandi Alex er Anna Karlsdóttir lektor í mannvistarlandfræði og ferðamálafræði við Háskóla Íslands en prófdómari er Brad Barr kennari við Haf- og strandsvæðastjórnun hjá Háskólasetri Vestfjarða.


Horft út á Ísafjarðardjúp. Verkefnin tvö sem kynnt verða á morgun snúa að stjórnun strandsvæða og ferðaþjónustu við Ísafjarðardjúp. Ljósmynd: Kjartan Pétur Sigurðsson.
Horft út á Ísafjarðardjúp. Verkefnin tvö sem kynnt verða á morgun snúa að stjórnun strandsvæða og ferðaþjónustu við Ísafjarðardjúp. Ljósmynd: Kjartan Pétur Sigurðsson.