Ferðaþjónusta fyrir ríka og fáa í sjávarbyggðum - bjargvættur eða böl?
Elísabet er arkitekt að mennt og hefur undanfarin ár stýrt verkefnum í Noregi og Kanada þar sem lögð hefur verið áhersla á að leiða saman listafólk og hönnuði annars vegar og fólk sem býr á jaðarsvæðum hins vegar til gagns fyrir báða aðila. Hún byggði upp og rak teiknistofuna kol og salt á Ísafirði á árunum 1988 – 2003 en fluttist þá til Noregs þar sem hún rak listamiðstöð á vegum Norrænu Ráðherranefndarinnar á vesturströnd landsins. Að lokinni fimm ára dvöl í Noregi vann hún í nær fjögur ár að verkefni á austurströnd Kanada þar sem hún tók þátt í að byggja upp listamiðstöð og samfélagsverkefni frá grunni sem tekur mið af hugmyndum um Geo-túrisma.
Í Vísindaporti á föstudaginn mun hún segja frá verkefninu í Kanada, gera grein fyrir aðferðarfræðinni sem beitt var við uppbygginguna og bregða ljósi á það helsta sem virkaði vel í verkefninu en einnig það sem betur mátti fara.
Fyrirlesturinn hefst kl. 12:10 á föstudaginn í kaffistofu Háskólaseturs. Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku en þeir sem hafa áhuga á því að fá fyrirlesturinn á íslensku við annað tækifæri er velkomið að hafa samband.