fimmtudagur 26. október 2017

Ferðamál og umhverfi: heimsókn frá Franklin-háskóla

Hópur nemenda á vegum Franklin-háskóla í Sviss er nú staddur í fimm daga heimsókn á norðanverðum Vestfjörðum. Þetta er í fjórða sinn sem Háskólasetrið tekur á móti hóp frá skólanum og koma nemendur hingað til lands til að sitja 12 daga vettvangsnámskeið sem fjallar um áhrif ferðamennsku á umhverfi og samfélag og þar er Ísland notað sem dæmi, „Tourism and the Environment: Iceland“.

Franklin er alþjóðlegur háskóli staðsettur í borginni Lugano í Sviss. Margir nemenda hans eru frá Bandaríkjunum, en annars sækja hann ungmenni frá yfir 50 þjóðlöndum. Hópurinn sem heimsækir Háskólasetrið nú telur 23 nemendur og í honum eru, auk nokkurra Bandaríkjamanna, nemendur frá Sádi-Arabíu, Ítalíu, El Salvador, Jordaníu og Sviss.

Á meðan hópurinn dvelur hér á norðanverðum Vestfjörðum verður boðið upp  á ýmsa fyrirlestra og kynningar tengdar viðfangsefninu. Munu þeir fá að hitta hagsmunaaðila í ferðamálum, bæði á vegum hins opinbera og á vegum fyrirtækja í ferðamannaþjónustu. Ýmsar hliðar ferðamennsku verða teknar fyrir, svo sem móttaka skemmtiferðaskipa en einnig ævintýraferðamennska, með áherslu á friðlandið á Hornströndum. Þess utan verður farið í stuttar vettvangsferðir.

Fagstjóri námskeiðsins er sem fyrr Dr. Brack Hale. Brack hefur margsinnis heimsótt Ísland og hefur hann seti nokkur íslenskunámskeið Háskólaseturs. Síðastliðna vorönn var Brack í rannsóknarleyfi og eyddi hann hluta annarinnar við Háskólasetrið til skoða samhengi vettvangsskóla og ágangs á vinsæla ferðamannastaði á Vestfjörðum. Hann notaði tímann vel og tók einnig virkan þátt í ísfirsku samfélagi og gerðist hann m.a. félagi í Sunnukórnum.

Háskólasetrið býður Brack Hale og nemendahópinn hans innilega velkomin til Ísafjarðar og vonar að dvölin verði gefandi.


Glaðbeittur hópur nemenda Franklin University kominn á áfangastað í Háskólasetrinu.
Glaðbeittur hópur nemenda Franklin University kominn á áfangastað í Háskólasetrinu.
1 af 2