fimmtudagur 29. apríl 2010

Ferðafélag Ísfirðinga kynnt

Föstudaginn 30. apríl fer síðasta Vísindaport þessa vetrar fram, enda sumarið á næsta leyti og próftímabilið í þann mund að hefjast í Háskólasetrinu. Það er því ekki úr vegi að huga að sumrinu, einkum og sér í lagi ferðalögum og útivist. Gestir þessa síðasta Vísindaports verða þau Pernilla Rein og Ólafur Jens Sigurðsson, félagsmenn í Ferðafélagi Ísafirðinga.

Fyrir tilstuðlan Heilsueflingar Ísafjarðarbæjar var Ferðafélag Ísfirðinga endurvakið í byrjun þessa árs, eftir að starfsemi þess hafði legið niðri í nokkur ár. Í erindi sínu munu þau Pernilla og Ólafur kynna félagið, markmið þess og starfsemi. Fjallað verður um það starf sem þegar hefur verið unnið á árinu í máli og myndum, en félagið hefur boðið upp á sex stuttar gönguferðir það sem af er árinu og hefur mætingin verið mjög góð. Á dögunum var aðalfundur félagsins einnig haldinn þar sem kosið var í stjórn og tvær nefndir, Göngunefnd og Fræðslunefnd. Í erindinu verður einnig fjallað um það sem fyrirhugað er á næstunni. Allir sem áhuga hafa á útivist og gönguferðir og langar til að kynna sér félagið eru hvattir til að mæta á kynninguna.

Félagar í Ferðafélagi Ísfirðinga eru nú 90 talsins og er félagið aðili að Ferðafélagi Íslands (FÍ). Félagar í Ferðafélagi Ísfirðinga eru sjálfkrafa félagar í FÍ og njóta allra kjara félagsins.

Vísindaportið fer fram í kaffisal Háskólaseturs líkt og venjulega og hefst kl. 12.10. Allir velkomnir.

Úr fyrstu göngu Ferðafélagsins frá því í vetur. Gengið var frá Seljalandsdal og upp á Sandafell.
Úr fyrstu göngu Ferðafélagsins frá því í vetur. Gengið var frá Seljalandsdal og upp á Sandafell.