Farandverkafólk og hagsveifla á áttunda áratug síðustu aldar
Á áttunda áratug síðustu aldar urðu viss straumhvörf í efnahagskerfi heimsins. Hagvöxtur snarminnkaði, tekjur af framleiðslu og verslun drógust saman, atvinnuleysi gerði vart við sig. Þá hrapaði hagvöxtur í Evrópu en óx á Íslandi. Ísland var tiltölulega afskekkt efnahagskerfi og lítið - eins og enn er - viðkvæmt fyrir sveiflum. Það var verið að tæknivæða sjávarútveginn með skuttogarakaupum, byggja og endurnýja frystihús og endurskipuleggja vinnuferlið í vinnslunni. Íbúum smærri útgerðarstaða hafði fækkað stórlega. Fjölmenn kynslóð um tvítugt var að hleypa heimdraganum, og ekki aðeins á Íslandi. Ungar erlendar konur í hundraðatali áttu tímabundið greiða leið inn í þetta nýstárlega vinnuumhverfi.
Erindið byggir á mastersritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands. Það fjallar um hagfræði og lífskjör og byggir meðal annars á túlkun viðtala í samræmi við kröfur um munnlegar heimildir í sagnfræði. Efnið spannar skilyrði fiskvinnslugreinarinnar, aðstæður farandverkafólks og einkum kvenna, viðhorf útlendinga og frásagnir úr þjóðlífinu sem gefa góða mynd af sögunni að baki nútíðinni.
Sigurlaug Gunnlaugsdóttir nam sagnfræði og dönsku við Árósaháskóla og Háskóla Íslands um 1980 og lauk MA í sagnfræði 2008 með verkefninu: "Farandverkafólk á uppgangstíma sjávarútvegsins; Skilyrði og viðhorf 1974-1983". Hún hefur stundað ýmis störf í grunnatvinnuvegum og á fræðasviði, og starfar við útgáfu- og kynningarmál hjá Veðurstofu Íslands.