fimmtudagur 21. febrúar 2013

Fab Lab

Í Vísindaporti föstudagsins, 22. febrúar, mun Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, starfsmaður Nýsköpunarmiðstöðvar kynna fyrir okkur hugmyndafræðina á bak við Fab Lab stöðvarnar.

Fab Lab (e. Fabrication Laboratory) er stafræn smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Þannig gefur Fab Lab smiðjan ungum sem öldnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu á persónumiðaðri framleiðslu, stafrænum framleiðsluaðferðum í iðnaði og að efla nýsköpun á Íslandi.

 Fab Lab á Ísafirði er samstarfsverkefni margra aðila, þ.á.m. Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Menntaskólans á Ísafirði, Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkurkaupstaðar, Iðnaðarmannafélagsins á Ísafirði, Vaxtarsamnings Vestfjarða og fleiri góðra stofnanna og einstaklinga. Þannig er Fab Lab smiðjan ætluð frumkvöðlum, nemendum, almenningi, fyrirtækjum og stofnunum og er búnaðurinn aðgengilegur öllum undir leiðsögn sérfræðinga Nýsköpunarmiðstöðvar og annarra.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir starfar sem verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð og hjá Háskólasetri Vestfjarða. Hún lauk BA gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og MA gráðu í landfræði frá sama skóla árið 2012.

Visindaportið er öllum opið, hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs. Að þessu sinni mun fyrirlesturinn fara fram á íslensku.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir