mánudagur 28. mars 2011

Evrópskir sérfræðinga funda um meistaranám í fiskeldi

Vinnuhópur Aqua-TNet um eflingu kennslu á meistarastigi í fiskeldi munu halda vinnufund á Vestfjörðum í maí næstkomandi. Aqua-TNet er stórt evrópskt verkefni með áherslu á fiskeldi, fiskveiðar og stjórnun vatna- og sjávarauðlinda, verkefnið er fjármagnað af Símenntunaráætlun Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins frá 2008-2011. Alls eiga hundrað og tuttugu þátttakendur frá tuttugu og fimm Evrópulöndum aðild að verkefninu. Íslenskir þátttakendur auk Háskólaseturs Vestfjarða eru Háskólinn á Hólum og Matís.

Vinnuhópur um kennslu á meistarastigi samanstendur af tuttugu og fimm aðilum, en gert er ráð fyrir að fjórtán þeirra sæki fundinn í lok maí hér á Vestfjörðum. Val á fundarstað að þessu sinni stóð á milli fundar á Grikklandi í apríl eða fundar á Vestfjörðum í maí, en meirihluti vinnuhópsins valdi Vestfirði. Fundurinn er haldinn af Háskólasetri Vestfjarða og verður án efa ánægjulegt að taka á móti þessum erlendu gestum, en auk eiginlegra vinnufunda verða fiskeldisstöðvar og fiskvinnslustöðvar á svæðinu heimsóttar.

Frá ferð nemenda í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun um sunnanverða Vestfirði. Nemendurnir skoðuðu m.a. fiskeldi á svæðinu í ferð sinni.
Frá ferð nemenda í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun um sunnanverða Vestfirði. Nemendurnir skoðuðu m.a. fiskeldi á svæðinu í ferð sinni.