mánudagur 16. apríl 2012

Ertu til í að hýsa erlendan nema? - kynningarfundur 17.apríl

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðu Háskólaseturs þá munum við taka á móti hóp á vegum School for International Training (SIT) í sumar. SIT er háskóli í Vermont í Bandaríkjunum og er þetta sjötti SIT hópurinn sem heimsækir okkur. Nemarnir sitja hér námsáfanga um endurnýjanlegar orkugjafir sem stendur yfir í u.þ.b. 6 vikur og fer fram m.a. hér á Ísafirði og í Reykjavík.

 

Þar sem kynning á landi, þjóð og tungu er mikilvægur hluti af náminu munu nemarnir einnig fá kennslu í íslensku og þeim verður einnig boðið að gista í heimahúsum í tvær vikur. Þetta er góð leið til að kynnast íslenskri menningu og í leiðinni fá tækifæri til að æfa sig í málinu. Einnig getur þetta verið mjög skemmtileg leið fyrir heimamenn til að kynnast erlendu ungmenni og ef vel til tekst, skapa persónuleg tengsl um ókomna framtíð.

 

Tímabilið sem um ræðir er 18.júní-2.júlí 2012. Gestgjafinn þarf að geta boðið upp á sér herbergi ásamt morgun- og kvöldmat og greiðir SIT fyrir þessa þjónustu. Leitað er aðallega að fjölskyldum, en einstaklingar og barnlaus pör koma einnig til greina.

 

Á morgun þriðjudaginn 17. apríl kl 17:00 verður haldinn kynningarfundur í Háskólasetrinu þar sem fyrirkomulagið verður kynnt nánar. Fundurinn er fyrst og fremst hugsaður fyrir þá sem þegar hafa boðist til að taka þátt, en aðrir sem hafa áhuga á kynna sér verkefnið eru einnig velkomnir á fundinn.

 

Frekari upplýsingar gefur Pernilla Rein verkefnastjóri pernilla(hjá)uwestfjords.is eða í síma 450-3044.