fimmtudagur 9. október 2014

Er allur hafís að hverfa - kemur hann aftur?

Björn Erlingsson, sérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands ætlar í Vísindaporti vikunnar, föstudaginn 10. október, að fjalla um hafís og þátt hans í loftslagskerfinu.

Vetur hefur gengið í garð á Norðurheimskautinu þar sem hafísútbreiðslan er farin að aukast eftir lágmark sumarsins. Enn er afkoma hafísins slök miðað við meðalár þó hún sé heldur skárri en 2012. Hlýnun loftlags af völdum gróðurhúsaáhrifa hefur haft meiri áhrif á heimskautasvæðunum en annarstaðar á jörðinni. Bráðnun hafíss og þá sér í lagi fjölvetrungs hefur verið hraðari og rúmmál þess hafíss sem lifir af sumarbráðnunina er aðeins 70% af því sem það var fyrir um 40 árum. Í erindinu verður fjallað um afdrif hafísins í óstöðugu loftlagskerfinu og hvers vegna hnattræn hlýnun magnast upp á norðurhjaranum. Í endindinu verður sagt frá hreyfingum og þykktarummyndunum sem koma við sögu og varða afdrif og áhrif hafíssins í loftlagskerfinu. Við veltum vöngum yfir því hvað þurfi til að hafísinn komi aftur.

Björn er með B.Sc próf í eðlisfræði frá Háskóla Íslands 1981 og Cand Sc. í hafeðlisfræði frá Háskólanum í Osló 1987.

Vísindaportið er öllum opið og hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs.