fimmtudagur 9. desember 2010

Efnahagsleg áhrif Háskólaseturs

Síðastliðnar vikur hefur Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða unnið að úttekt á hagrænum áhrifum Háskólaseturs Vestfjarða. Niðurstöður úttektarinnar hafa nú birst á vefsíðu Atvinnuþróunarfélagsins. Þar kemur fram að fyrir hverja krónu sem ríkið leggur til Háskólasetursins, koma tvær til baka í aukinni neyslu á Vestfjörðum. Í þessu samhengi munar mestu um meistaranámið í haf- og strandsvæðastjórnun, enda koma flestir nemendur þess utan frá - eru nýir íbúar. Úttektin tekur einnig mið af þeim fjögurþúsund aðkeyptu gistinóttum sem Háskólasetrið hefur staðið fyrir árlega undanfarin ár. Vestfirðingar vita þetta, þ.e.a.s. að aukinn íbúafjöldi og aukinn straumur ferðamanna vegna menntatengdrar ferðaþjónustu eykur veltu, það var ekki síst af þessum sökum sem Vestfirðingar vildu starfsemi á háskólastigi vestur.

Nú í haust gerði mennta- og menningarmálaráðuneytið úttekt á öllum setrum sem staðsett eru víðsvegar um landið. Burtséð frá því að sambærilega úttekt vantar á setrum á höfuðborgarsvæðinu, væri forvitnilegt að vita hver hagræn áhrif eru af setrunum á viðkomandi byggðarlög, miðað við fjármögnun. Ef setrin eiga að hafa byggðaþróunarhlutverk, þarf að taka það með í reikninginn við fjármögnun. Til dæmis með því að tengja fjármögnunina við hagræn áhrif, sinnum fólksfækkunarstuðul síðastliðin tuttugu ár, sinnum vegalengd til næsta Háskóla.

Hér má sjá jákvæð efnahagsleg áhrif Háskólaseturs og þann gríðarlega samdrátt sem á þeim yrði ef mikilvægir liðir í starfsemi þess líkt og meistaranámið leggjast af.
Hér má sjá jákvæð efnahagsleg áhrif Háskólaseturs og þann gríðarlega samdrátt sem á þeim yrði ef mikilvægir liðir í starfsemi þess líkt og meistaranámið leggjast af.