mánudagur 7. maí 2012

Efling tengslanets Háskólaseturs

Efling tengslanets Háskólasetursins er mikilvægt viðfangsefni, ekki síst með tilliti til staðsetningu okkar fjarri höfuðborgarsvæðinu. Háskólasetrið fagnar þeim tækifærum sem skapast hafa á síðustu misserum.

 

Nýverið, eða dagana 18. og 19. apríl, sótti fagstjóri meistaranáms í haf- og strandsvæðastjórnun vinnusmiðju í Osló í boði Norrænu ráðherranefndarinnar. Vinnusmiðja þessi fór fram í húsakynnum norska umhverfisráðuneytisins við Akershus-virkið í Osló. Auk fagstjóra fóru þrír fulltrúar frá Íslandi: Hafdís Hafliðadóttir, sviðsstjóri hjá Skipulagsstofnun, Sigmar Arnar Steingrímsson, sérfræðingur í umhverfismati hjá Skipulagsstofnun og Matthildur K. Elmarsdóttir, ráðgjafi skipulagsmála hjá Alta. Markmið vinnusmiðjunnar var að skilgreina sérnorræn viðfangsefni, þemu og gildi sem skal hafa að leiðarljósi við stefnumótun á sviði hafsvæðaskipulags á Norðurlöndum. Afar gagnlegt var að kynnast þeim áskorunum sem nágrannaþjóðir okkar kljást við á þessu sviði, sem og þeim sérfræðingum sem vinna á þessu sviði.

 

Kennslustjóri Háskólaseturs var einnig á faraldsfæti, en dagana 17. og 18. apríl tók kennslustjóri þátt í vinnufundi Aqua-Tnet í Arberdeen í Skotlandi. Vinnufundurinn fór fram í húsakynnum skosku hafrannsóknarstofunarinnar. Markmið vinnufundarins var að vinna áfram að leiðum til að efla og meta símenntun starfsmanna við fiskeldi og sjávarútveg - sérstaklega eflingu EC-VET kerfisins. Kennslustjóri var eini fulltrúi Íslands á fundinum en aðrir fundarmenn komu víðsvegar frá Evrópu.

 

 


Íslenskir þátttakendur í vinnusmiðju um norrænt hafsvæðaskipulag. Frá vinstri: Hafdís, Sigmar, Matthildur og Dagný.
Íslenskir þátttakendur í vinnusmiðju um norrænt hafsvæðaskipulag. Frá vinstri: Hafdís, Sigmar, Matthildur og Dagný.