Dr. Matthias Kokorsch ráðinn fagstjóri í Sjávarbyggðafræði
Sjávarbyggðafræði, nýtt meistaranám við Háskólasetur Vestfjarða hefst haustið 2019. Staða fagstjóra námsins var nýlega auglýst og bárust 13 umsóknir um starfið. Þar af voru fjórar umsækjendur með doktorsgráðu, fimm umsækjendur voru Íslendingar eða íslenskumælandi, sex karlar og sjö konur.
Gert var forval og var fjórum umsækjendum boðið í viðtal. Við gerð forvals var litið til faglegrar menntunar, kunnáttu í íslensku og ensku, og þekkingu á samfélaginu. Þar sem Háskólasetrið er nú þegar með fagstjóra í Haf- og strandsvæðastjórnun, var lögð áherslu á fög sem byggðafræðanámið byggir sérstaklega á, landfærði, félagsvísindi og hagfræði.
Ákveðið var að ráða Matthias Kokorsch til starfa. Matthías er með doktorsgráðu frá Háskóla Íslands. Viðfangsefni doktorsritgerðar hans var seigla íslenskra sjávarbyggða, og ber titilinn Mapping Resilience – Coastal Communities in Iceland og voru leiðbeinendur hans Karl Benediktsson, HÍ, Anna Karlsdóttir, Nordregio, og Kevin St Martin, Rutgers University.
Bakgrunnur Matthíasar er breiður og notaðist hann bæði við megindlegar og eigindlegar rannsóknaraðferðir i doktorsritgerðinni sinni. Slíkt er mikilvægt fyrir Háskólasetrið þar sem fagstjóri þarf að geta tekist á við breiðan og ólíkan áhuga nemenda hvað rannsóknir og rannsóknaraðferðir varðar.
Matthias Kokorsch starfar nú við Thünen Institute of Rural Studies í Brúnsvík/Braunschweig í Þýskalandi og stundakennari við háskólann í Hannover. Þar kennir hann um þessar mundir námskeiðið Þorp og smáborgir í tímanna rás: Kenningar, aðferðir og tillögur að stjórnun (Villages and towns in the course of time: Theories, methods, and policy recommendations).
Gert er ráð fyrir Matthias hefji störf í ágúst. Námsbyrjun er svo í lok ágúst þannig að hans bíða mörg verkefni.