þriðjudagur 19. júlí 2016

Dr. Catherine Chambers ráðin fagstjóri

Alls bárust tíu umsóknir um starf fagstjóra meistaranámsins í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Þar af voru þrír umsækjendur sem lokið hafa doktorsprófi eða eru langt komnir í doktorsnámi en allir umsækjendur voru a.m.k. með eina meistaragráðu. Níu umsækjendur höfðu lokið námi á sviði strandsvæðastjórnunar, auðlindastjórnun eða sambærilegu.

Ráðninganefndin ákvað að ráða Dr. Catherine Chambers í stöðuna. Catherine hefur reynslu af CMM meistaranáminu þar sem hún hefur bæði verið leiðbeinandi og prófdómari meistaraprófsritgerða. Auk þess kenndi hún nýverið þann hluta námskeiðsins Applied Methodology sem snýr að eigindlegum rannsóknaraðferðum.

Catherine Chambers er með doktorspróf frá University of Alaska Fairbanks, meistarapróf í dýrafræði frá University of Southern Illinois og bakkalárpróf frá Drake University í umhverfisfræði. Doktorsritgerð hennar, Fisheries managment and fishing livelihoods in Iceland, fjallar um fiskveiðistjórnun og afkomu af fiskveiðum á Íslandi. Verkefnið var hluti af þverfaglega verkefninu „Marine Ecosystem Sustainability in the Arctic and Subarctic“ sem var stutt af US National Science Foundation.

Rannsóknir Catherine snúa einkum að fiskveiðistjórnun, strandbyggðum og félagsvistfræðikerfum á norðurslóðum. Meðal rita eftir Catherine má nefna greinina „Thirty years after privatization: A survey of Icelandic small-boat fishermen“ auk greina á sviði líffræði og dýrafræði. Einnig hefur hún gefið út grein þar sem lögð eru drög að nýjum viðmiðum við kennslu á hugtökum þverfræðilegra nálgunar og sjálfbærrar þróunar á háskólastigi.

Bakgrunnur Catherine er breiður og hefur hún bæði þekkingu á megindlegum og eigindlegum rannsóknaraðferðum. Slíkt er mikilvægt fyrir Háskólasetrið þar sem fagstjóri þarf að geta tekist á við breiðan og ólíkan áhuga nemenda hvað rannsóknir og rannsóknaraðferðir varðar.

Cahterine Chambers hefur unnið á Íslandi frá árin 2008. Frá árinu 2011 hefur hún gengt sameiginlegri sérfræðingsstöðu við Háskólann á Hólum og Þekkingarsetrið á Blönduósi  en hefur jafnframt verið vísindafélagi við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri.


Catherine Chambers er nýr fagstjóri meistaranámsins í haf- og strandsvæðastjórnun.
Catherine Chambers er nýr fagstjóri meistaranámsins í haf- og strandsvæðastjórnun.