mánudagur 30. maí 2022

Dr. Brack Hale ráðinn sem fagstjóri meistaranáms

Dr. Brack Hale hefur verið ráðinn sem nýr fagstjóri fyrir námsleiðina Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða.

Brack Hale er með doktorspróf í landnýtingu frá Wisconsin-Madison háskólanum í Bandaríkjunum, M.E.M. gráðu í vatnsnýtingu frá Duke háskóla og bakkalárgráðu í samanburðarlandfræði frá sama skóla. Hann er prófessor í líf- og umhverfisfræði og deildarstjóri raun- og heilsuvísinda við Franklin háskólann í Sviss.

Dr. Hale hefur mikla reynslu af háskólastjórnsýslu, þróun námskrár, kennslu, gæðamati og stjórnun. Reynsla hans úr lítilli en um leið mjög alþjóðlegri stofnun á borðvið Franklin háskólann í Sviss mun án efa nýtast mjög vel við Háskólasetrið sem einmitt deilir þessum einkennum.

Brack Hale er ekki ókunnugur Háskólasetrinu enda hefur hann undanfarin áratug átt í margvíslegu samstarfi við Háskólasetrið. Hann talar auk þess nú þegar íslensku sem er mikill kostur. Frá árinu 2010 hefur hann komið með nemendahópa frá Franklin háskóla í vettvangsnám á Vestfjörðum og víðar á Íslandi, auk þess sem hann dvaldi í rannsóknarleyfi eina önn við Háskólasetrið árið 2017.

Starfið losnaði fyrr á þessu ári þegar Dr. Veronica Mendez Aragon, ákvað að snúa sér alfarið að rannsóknum á nýjan leik.

Mikil ánægja er með gæði umsókna en alls sóttu 15 um stöðuna þar af 12 með doktorspróf.


Dr. Brack Hale hefur verið ráðinn sem nýr fagstjóri fyrir námsleiðina Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða.
Dr. Brack Hale hefur verið ráðinn sem nýr fagstjóri fyrir námsleiðina Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða.