fimmtudagur 9. febrúar 2017

Diplómanám í leikskólakennarafræðum

Háskóli Íslands kannar nú möguleikana á betra aðgengi að diplómanámi í leikskólakennarafræðum í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða og Ísafjarðarbæ. Samstarfið felur einna helst í sér að nemendur af svæðinu þurfa ekki að fara í eins margar staðlotur suður og tíðkast, heldur munu kennarar koma vestur og kenna í Háskólasetrinu. Jafnframt mun Ísafjarðarbær auðvelda starfsmönnum sínum að taka þátt í þessum lotum.

Til að hægt sé að fara af stað með verkefnið er gerð krafa frá Háskóla Íslands að hið minnsta 7-8 nemendur séu skráðir. Þeir sem hafa áhuga á náminu eru því hvattir til að hafa samband við kennslustjóra Háskólaseturs sem fyrst. Hægt er að hringja í Kristínu Ósk Jónasdóttur, kennslustjóra, í síma 450-3041, koma við eða senda póst á netfangið kristin@uw.is.

Um er að ræða 120 ECTS nám (2 ár) sem er bæði fræðilegt og starfstengt. Meginmarkmið námsin er að undirbúa nemendur fyrir starf í leikskóla og samstarf í starfsmannahópi leikskóla. Jafnframt er  áhersla lögð á að nemendur hljóti fræðilega og starfstengda þekkingu á uppeldi og menntun leikskólabarna og þjálfun í að beita henni. Að námi loknu hljóta nemendur starfstitilinn aðstoðarleikskólakennari.

Bent skal á að ekkert er því til fyrirstöðu að halda áfram námi eftir að diplómanáminu lýkur og telja einingarnar inn í bakkalár gráðu í leikskólakennarafræðum.

Frekari upplýsingar um námið er að finna í kennsluskrá Háskóla Íslands.


Leikskólinn Sólborg á Ísafirði.
Leikskólinn Sólborg á Ísafirði.