Canvas tekið í notkun í samstarfi við HA
Nú í haust tók Háskólasetur Vestfjarða í notkun náms- og kennsluumsjónarkerfið Canvas í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Canvas er veflægt umhverfi sem bíður uppá mikla möguleika í námi og kennslu, bæði varðandi verkefnaskil, prófatöku, endurgjöf til nemenda, samskipti milli nemenda og kennara og fleira. Canvas býður uppá bæði kennara og nemenda smáforrit sem nálgast má í öllum snjalltækjum. Þar geta nemendur fylgst með námskeiðum sínum og séð bæði námsefni og tilkynningar frá kennurum.
Eitt af því sem nemendur í meistaranámi við Háskólasetrið geta nú gert er að taka skrifleg próf í læstum vafra á tölvu. Fyrsta slíka prófið var tekið síðastliðinn föstudag og er skemmst frá því að segja að vel tókst til við framkvæmdina og ekki annað að skilja á nemendum en að þeim hafi líkað vel við fyrirkomulagið. Háskólasetrið leggur mikla áherslu á að veita nemendum aðgang að öllu náms- og kennsluefni á sem þægilegastan hátt og stendur Canvas undir væntingum þegar að því kemur.