miðvikudagur 31. mars 2010

CMM nemi í skiptinámi á Grænlandi

Alexander Stubbing frá Kanada er einn af námsmönnunum sem hóf meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið síðastliðið haust. Undanfarnar vikur hefur hann verið í skiptinámi við Tækniháskóla Danmerkur (DTU) sem m.a. rekur Norðurskauts tæknisetrið (ARTEK).

Skiptinámið fer fram í Sisimiut á Grænlandi og ber titilinn „Norðurskauts tækni misserið" („The Arctic Technology Semester"). Á misserinu er fjallað um þrjú viðfangsefni: Endurnýjanlega orku, Norðurskauts umhverfið og Byggingar/Framkvæmdir á Grænlandi.

Hvert og eitt viðfangsefni er til umfjöllunar í einn mánuð og mun Alexander dvelja á Grænlandi alla þrjá mánuðina. Á meðan á dvölinni stendur mun hann einbeita sér að auðlindastjórnun og haf- og strandsvæðastjórnun í öllum sínum verkefnum.
Nýverið tók Alexander þátt í ráðstefnunni „Arctic Energy Supply - Which way will Greenland choose" og fjallaði erindi hans um stöðu orkumála á Grænlandi.

Við hlökkum til að fá Alexander aftur til Ísafjarðar frá Grænlandi þegar líður á vorið. Það verður án efa gaman að fá frekari fréttir af námi hans og ævintýrum í nágrannalandinu í vestri.

Alexander Stubbing í vettvangsferð á Vestfjörðum í haust.
Alexander Stubbing í vettvangsferð á Vestfjörðum í haust.