mánudagur 3. mars 2014

CMM kennari ráðinn fagstjóri SIT

Að aðstoða og undirbúa komu erlenda vettvangsskólahópa er eitt af þeim verkefnum sem Háskólasetrið hefur sinnt nánast frá upphafi. Meirihluti þessara hópa eru á vegum háskóla í Norður-Ameríku og er einn þeirra School for International Training (SIT) sem er heimaheyrandi í Vermont-fylki í Bandaríkjunum. Meðal margra annarra námsbrauta um víðan heim býður skólinn upp á sjö vikna sumarnámskeið á sviði endurnýjanlegrar orku og umhverfishagfræði, Renewable Energy, Technology, and Resource Economics, og fer hluti af náminu fram hér á Vestfjörðum.

 

Caitlin Wilson, doktorsnemi í auðlindastjórnun við HÍ hefur undanfarin ár gegnt hlutverki fagstjóra en ákvað á síðasta ári að láta staðar numið.  Síðastliðið sumar hafði Caitlin sér til aðstoðar Astrid Fehling og Alëx Elliott, sem eru bæði fyrrverandi nemar í haf- og strandsvæðastjórnun. Koma bæði erlendis að en hafa fest hér rætur. Astrid hefur undanfarin vetur kennt námskeið við námsbrautina, GIS, þe. landfræðileg upplýsingakerfi. Sótti hún um fagstjórastöðuna hjá SIT og er nú orðið ljóst að hún mun hafa umsjón með náminu í sumar. 

 

Astrid kemur frá Hamburg í Þýskalandi og kom fyrst hingað 2010 til þessa að sitja nokkur námskeið í meistaranáminu í Haf-og strandsvæðastjórnun hér við Háskólasetrið. Hún hreifst mjög af umhverfinu, hafði alltaf langað til að búa nærri sjó og nú er Astrid búsett hér, eins og getið var hér að ofan.  Astrid lauk BS-gráðu í landafræði frá Brímar-háskóla og kláraði svo meistaragráðu í umhverfisstjórnun frá háskólanum í Kiel. Í lokaverkefni sínu skoðaði Astrid aðkomu hagsmunaðila í verkefnum er tengjast haf- og strandsvæðum og skoðaði hún þetta út frá tilraunaverkefninu Nýtingaráætlun strandsvæðis Arnarfjarðar 2012-2024

 

Háskólasetrið óskar Astrid til hamingju með stöðuna og við hlökkum til samvinnunar.