fimmtudagur 26. mars 2009

Byggðasafn Vestfjarða kynnt

Í Vísindaporti vikunnar munu Jón Sigurpálsson og Björn Baldursson frá Byggðasafni Vestfjarða kynna starfsemi safnsins. Í erindi sínu munu þeir félagar fjalla um sýninguna í Turnhúsinu, fara yfir stefnu safnsins í bátavarðveislu, segja frá saltfiskverkun safnsins og ekki síst hinni árlegu saltfiskveislu. Gullkistuverkefnið verður kynnt og rætt um framtíðarsýn safnsins varðandi það. Einnig verður sagt frá því sem er helst á döfinni á næstunni í Byggðasafni Vestfjarða.

 

Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum og hefst stundvíslega kl. 12.10. Það fer fram í kaffisal Háskólaseturs og eru allir velkomnir.