mánudagur 28. janúar 2008

Búið að ráða í tvær stöður hjá Háskólasetri Vestfjarða

Búið er að ráða í stöðu verkefnastjóra og stöðu fagstjóra hjá Háskólasetri Vestfjarða. 


Umsækjendur um stöðu verkefnastjóra voru sex, þar af voru þrír af Vestfjörðum. Í starfið var ráðin Pernilla Rein, bókasafns- og upplýsingafræðingur. Pernilla er með meistarapróf í bókasafns- og upplýsingafræði frá Háskólanum í Borås og hefur að undanförnu starfað hjá Ísafjarðabæ. Pernilla mun sjá um utanumhald námsmannahópa og ráðstefna svo eitthvað sé nefnt, en Háskólasetrið á aftur von á nokkrum nemendahópum í sumar. 


Í stöðu fagstjóra var ráðin Sigríður Ólafsdóttir, en Háskólasetur Vestfjarða fékk mjög áhugaverðar umsóknir um þá stöðu. Til að byrja með var ráðið í hálft starf, enda er Sigríður enn bundin í hlutastarfi, en fyrir vikið getur hún hafið störf strax, sem er mikilvægt enda mikið verk framundan í uppbyggingu námsleiðar í haf- og strandsvæðastjórnun sem hefur göngu sína haustið 2008.  


Sigríður er að ljúka meistaranámi í umhverfisfræði frá Háskóla Íslands, sem er þverfaglegt nám. Lokaritgerð hennar fjallar um nýtingu og stjórnun strandsvæða, en það er einmitt svið hinnar nýju þverfaglegu námsleiðar Háskólaseturs Vestfjarða. Áður hefur Sigríður lokið BS-próf í landafræði, tekið áfanga í viðskiptafræði og lokið leiðsögumannsprófi. Hún hefur kennslureynslu í umhverfis- og landafræði, hefur starfað sem veðurfréttamaður og unnið við gerð þátta um umhverfi og náttúru hjá 365 miðlum.