Breytingar í starfsmannahópi Háskólaseturs
Dr. Verónica Méndez Aragón, fagstjóri meistaranámsins í haf- og strandsvæðastjórnun, hefur ákveðið að segja starfi sínu lausu og einbeita sér alfarið að rannsóknum. Hún lætur af störfum í sumar en mun fram að því gegna öllum starfsskyldum fagstjóra. Þessi góði fyrirvari veitir Háskólasetrinu gott svigrúm til að auglýsa stöðuna í tíma, sem er mikilvægt hvað varðar jafn sérhæft starf.
„Ég hef fengið tækifæri til að snúa aftur til Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi, þar sem ég get einbeitt mér alfarið að ástríðu minni fyrir rannsóknum á vaðfuglum,“ segir Veónica. „Það er ekki auðveld ákvörðun að kveðja þetta frábæra umhverfi sem ég hef starfað í hér á Ísafirði undanfarin ár, en ástríða mín og eldmóður liggur í rannsóknum á vistfræði.“
Á starfstímabili sínu hefur Verónica haft mjög jákvæð áhrif á námsleiðina í haf- og strandsvæðastjórnun. Hún hefur lagt mikla áherslu á gæði meistaraverkefna sem er einmitt einn mikilvægasti þátturinn í starfi fagstjóra. Á þeim tíma sem Verónica hefur starfað við Háskólasetrið hafa orðið umtalsverðar breytingar á starfseminni, nemendum hefur fjölgað og námsleið í Sjávarbyggðafræði verið að byggjast upp. Þetta hefur krafist náins og góðs samstarfs milli hennar og fagstjóra námsleiðarinnar í sjávarbyggðafræði, dr. Matthias Kokorsch.
„Það hefur verið afar ánægjulegt að fylgjast með góðu samstarfi fagstjóranna tveggja,“ segir dr. Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða. „Þau hafa unnið að uppbyggingu námsleiðanna tveggja í góðu samráði þannig að námsleiðirnar ganga fullkomlega í takt. Það er ómetanlegt fyrir Háskólasetrið að hafa tvo fagstjóra sem vinna að sama markmiði, og jafnvel enn betra þegar þetta sameiginlega markmið skilar sér í gæða rannsóknum lokaverkefna nemenda.“ Verónica var fljót að aðlagast hlutverki fagstjóra og ljóst er að Háskólasetrið mun sakna starfskrafta hennar. „Auðvitað er alltaf leitt að sjá að baki hæfs starfsfólks og að sjálfsögðu viljum við helst halda starfsfólki í fleiri ár,“ bætir Peter við. „En starfsfólk þróast, bæði persónulega og faglega, og því er ákveðin starfsmannavelta eðlileg og óhjákvæmileg. Ég vil því fyrst og fremst horfa á það jákvæða. Við höfum fengið mjög hæfan einstakling í okkar innra samstarfsnet og ég vona að Verónica komi aftur sem kennari, leiðbeinandi meistararitgerða og jafnvel sem rannsakandi í rannsóknarverkefnum í framtíðinni.“
Dr. Verónica Méndez Aragón, mun sem fyrr segir starfa áfram fram á sumar og halda áfram vinnu sinni með nemendum, leiðbeinendum og kennurum á næstu mánuðum. Reiknað er með að nýr fagstjóri taki svo til starfa áður en nýtt háskólaár hefst í haust. Frekari upplýsingar um stöðuna má nálgast í starfsauglýsingu hér á vefnum.