fimmtudagur 5. nóvember 2009

Breytingar á stofnum ónýttra fisktegunda á Íslandi 1985-2009

Síðastliðin þrjátíu ár hafa rannsóknir sýnt fram á hnignun fiskistofna í heiminum. Á allra síðustu árum hefur fiskveiðistjórnun tekið tillit til þess að stjórnun stökum stofnum í för með sér að litið er framhjá heildarsamhengi vistkerfis sjávar. Þar af leiðandi hefur fiskveiðistjórnun í auknum mæli færst frá þeirri nálgun að huga að einstökum stofnum til þess að líta til vistkerfisins í heild.

Þessi rannsókn byggir á gögnum sem hefur verið safnað í togararöllum Hafrannsóknastofnunar síðastliðin tuttugu og fimm ár, í því augnamiði að greina breytileika í stofnstærðum ónýttra fisktegunda. Slíkur breytileiki getur aukið skilning manna á breytingum í vistkerfi sjávar. Sextán tegundir voru valdar til greiningar. Þrjár tegundir, áttstrendingur, marhnútur og marhnýtill sýna niðursveiflu í stofnstærð á meðan aðrar þrjár tegundir, blákjatta, rauða sævesla og urrari, sýna uppsveiflu í stofnstærð.

Auk þess breyttust búsvæði níu tegunda umtalsvert á því tímabili sem rannsóknin nær til. Þrjár tegundir, þrömmungur, krækill og marhnútur, færðust suður á bóginn, tvær tegundir, spærlingur og blákjatta, færðust norðvestur á bóginn, tvær tegundir, geirnyt og urrari, færðust suður, ein tegund, pólskata, færðist norður á bóginn og ein tegund, marhnýtill, færðist suðaustur.

Eins og við er að búast í ljósi viðvarandi hækkunar hitastigs sjávar í kringum Ísland, fjölgaði í stofnum hlýsjávartegunda (tveimur af þremur) og færðust þær norður og vestur. Engin fækkun varð í stofnum hlýsjávartegunda en þeim tegundum sem hnignaði voru kaldsjávartegundir. Áhugavert er að einn kaldsjávarstofn óx og fjórar kaldsjávartegundir færðust suður á bóginn. Þessar síðastnefndu niðurstöður gefa til kynna breytingar á heildar samsetningu vistkerfisins og að smávægilegar breytingar á hitastigi geta haft áhrif á þessar tegundir.