fimmtudagur 23. janúar 2014

Börn og hamfarir

Í Vísindaporti, föstudaginn 24. janúar, mun Herdís Sigurjónsdóttir doktorsnemi í opinberri stjórnsýslu og hamfarafræðum halda fyrirlesturinn Börn og hamfarir – hvað getum við lært af Japan? Herdís er nú stödd hér við kennslu í Háskólasetrinu, en hún kennir námskeið um hamfarastjórnun á strandsvæðum.

Þann 11. mars árið 2011 urðu miklar hamfarir í Japan, þar sem tæplega 20 þúsund manns fórust og miklar skemmdir urðu í landinu. Það vakti athygli Herdísar að í Iwate héraði létu eingöngu 36 skólabörn lífið en rúmlega 20.000 börn eru á skólaaldri í héraðinu og lék því forvitni á að vita hversvegna þetta hlutfall var svona lágt. „Börnin reyndist vera afar vel undirbúin og vissu nákvæmlega hvernig þau áttu að bregðast við,“ segir Herdís. Eldri börnin leiddu þau yngri og þannig fóru allir á sín svæði. „Síðan fóru allir upp í fjöllin,“ bætir Herdís við.

Þessi viðbrögð barnanna urðu þeim til lífs því fljótlega eftir jarðskjálftann reið flóðbylgjan yfir og fór þá margt undir vatn. „Þetta gekk ótrúlega vel vegna þess að þetta hafði verið æft vel,“ segir Herdís. Stór hluti þessara 36 barna sem létu lífið voru sótt af foreldrum sínum og drukknuðu á leið heim úr skólanum.

Herdís er í samstarfi við Iwate háskóla í Japan og hefur farið þangað tvisvar eftir hamfarirnar til að kynna sér afleiðingar þeirra. Herdís starfar nú að þessum málaflokki hjá VSÓ ráðgjöf jafnframt doktorsnámi við Háskóla Íslands. Hún vinnur nú að rýmingaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið og Suðurnesin þar sem hún byggir meðal annars á reynslu Japana.

Vísindaportið hefst að venju klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs. Allir velkomnir.