fimmtudagur 24. október 2013

„Bolungarvík - að breyta þorpi í þjóðbraut“

Í Vísindaporti þessa vikuna, föstudaginn 25. október, mun Soffía Vagnsdóttir, kynna niðurstöður meistaranámsritgerðar sinnar sem hún skrifaði við Háskólann á Bifröst en hún lauk þaðan meistaragráðu í menningarstjórnun í sumar. Titill ritgerarinnar er „BOLUNGARVÍK, - að breyta þorpi í þjóðbraut“.

Í ritgerðinni leitar Soffía leiða til að snúa vörn í sókn í samfélögum þar sem uppistöðuatvinnuvegir hafa dregist saman. Hún leitar í smiðju fræðimanna á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu, skoðar baráttu jaðarsvæða í öðrum löndum, viðrar nýja hugmyndafræði um uppbyggingu samfélaga og fjallar um einkenni frumkvöðla og samfélagsfrumkvöðla. Allt er þetta gert til að færa rök fyrir því að Bolungarvík eigi sér sannarlega bjarta framtíð ef rétt er á málum haldið. Með breyttum viðhorfum er hægt að efla samstarf bæjarbúa, pólitískra yfirvalda (bæjaryfirvöld og ríkisvald) og forstöðumanna fyrirtækja og stofnana við frumkvöðla.

Soffíu þarf vart að kynna, en hún starfar sem skólastjóri Grunnskóla Bolungarvíkur. Er menntaður tónmenntakennari og einnig með meistaragráðu í menningarstjórnun.


Vísindaport er öllum opið og hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs.