fimmtudagur 12. apríl 2012

Boðið vestur - veisluföng úr náttúru Vestfjarða

Í Vísindaporti föstudaginn 13. apríl, munu þau Guðlaug Jónsdóttir og Karl Kristján Ásgeirsson kynna bók sína Boðið vestur - veisluföng úr náttúru Vestfjarða.

Boðið vestur er í grunninn matreiðslubók en jafnframt svo miklu meira en það. Í bókinni, sem skipt er upp í kafla eftir mánuðum ársins, er mikill fjöldi uppskrifta að ýmiss konar réttum að vestan, úr því náttúrulega hráefni sem í boði er og hefð er fyrir á hverjum árstíma.

Ríkuleg náttúra, menning og saga Vestfjarða skipa stóran sess í bókinni sem er hlaðin glæsilegum ljósmyndum Ágústs Atlasonar. Höfundarnir gera sér mat úr gömlum hefðum og siðum samhliða því að kynna lesendum spennandi nýjungar úr eldhúsi samtímans.

Sagt verður frá tilurð bókarinnar allt frá hugmynd að útgáfu hennar. Sýndar verða myndir og lesnir stuttir kaflar úr bókinni. Bókin kemur út um mánaðarmótin maí - júní og verður á íslensku, ensku og þýsku.

Guðlaug Jónsdóttir og Karl Kristján Ásgeirsson eru bæði matreiðslumeistarar. Að auki er Guðlaug með B.Ed gráðu frá Háskóla Íslands og Karl með BS gráðu í viðskiptafræðum frá Háskólanum á Akureyri.

Vísindaporið sem er öllum opið, hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs.