mánudagur 25. ágúst 2008

Blað brotið í menntamálum á Vestfjörðum

Næstkomandi sunnudag, 31. ágúst verður ný námsleið á meistarastigi við Háskólasetur Vestfjarða formlega sett af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Setningin markar tímamót, því með tilkomu námsleiðarinnar verður í fyrsta sinn boðið upp á staðbundið háskólanám, sem alfarið er kennt á Vestfjörðum.


Sigríður Ólafsdóttir fagstjóri meistaranámsins mun stjórna athöfninni, en auk menntamálaráðherra flytja Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða, Halldór Halldórsson, formaður stjórnar Háskólaseturs og Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, stutt ávörp. Setningarathöfnin fer fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði kl. 16, en í tengslum við hana verður einnig blásið til málþings um sjálfbæra nýtingu íslenskra strandsvæða klukkan 13 sem Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun setja. Málþinginu verður svo framhaldið mánudaginn 1. september og stendur frá kl. 8.30 til 12.30. Á málþinginu munu innlendir og erlendir kennarar námsleiðarinnar, ásamt fleiri sérfræðingum, varpa ljósi á viðfangsefni haf- og strandsvæðastjórnunar. Meðal efnis á málþinginu eru rannsóknir á náttúru og nýtingu strandsvæða, skipulag á strandsvæðum og stjórnun þeirra.


Með setningu meistaranámsins í haf- og strandsvæðastjórnun stígur Háskólasetur Vestfjarða stórt skref í átt að þeim markmiðum sem sett voru fram í framtíðarsýn setursins í október á síðasta ári. Þau markmið fela meðal annars í sér að Háskólasetrið bjóði upp á hágæða alþjóðlegar námsleiðir á meistarastigi á fjölbreyttum sviðum sem öll tengjast málefnum hafs og strandsvæða. Námsleiðirnar verða allar settar á fót í samvinnu við innlenda og erlenda háskóla sem standa framarlega í viðkomandi grein.


Meistaranámið í haf- og strandsvæðastjórnun er þverfaglegt, alþjóðlegt nám á sviði umhverfis- og auðlindastjórnun með áherslu á haf- og strandsvæði, en sérhæft nám sem snýr að þessum mikilvægu svæðum hefur ekki verið í boði á Íslandi fyrr. Námið er sett á fót í samvinnu við Háskólann á Akureyri sem hefur umsjón með innritun og útskrift nemenda jafnframt því að vera fræðilegur bakhjarl námsins. Kennarar námsleiðarinnar eru bæði innlendir og erlendir sérfræðingar á þeim fjölbreyttu sviðum sem námið tekur til. Mikil áhersla hefur verið lögð á að fá aðila til liðs við Háskólasetur sem bæði eru góðir kennarar og velmetnir fræðimenn á sínu sviði.


Inntak meistaranámsins við Háskólasetur Vestfjarða er í samræmi við áherslur Evrópusambandsins um samþætta stjórnun haf- og strandsvæða. Í því felst að málefni þessara viðkvæmu og mikilvægu svæða eru skoðuð út frá ólíkum sjónarmiðum með tilliti til efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra ábata. Slík nálgun er viðbragð við auknu álagi á haf- og strandsvæði sem hefur farið vaxandi vegna ásóknar í auðlindir, fólksfjölgunar og aukinnar uppbyggingar á strandsvæðum. Ennfremur má nefna loftslagsbreytingar og víðtæk áhrif þeirra á lífríki, lífsafkomu og samfélag manna en þar er um að ræða ófyrirséða atburðarrás sem mikilvægt er að stjórnvöld og samfélag séu í stakk búin að takast á við. Sérhæft nám sem tekur til þessara aðkallandi mála hefur ekki verið í boði á Íslandi fyrr og því má segja að námið sé svar við aðkallandi og knýjandi viðfangsefnum samtímans.