fimmtudagur 3. nóvember 2011

Birtingarmynd náttúrunnar í fjölskylduljósmyndum

Í Vísindaporti föstudaginn 4. nóvember mun Guðrún Svava Guðmundsdóttir fjalla um birtingarmynd náttúrunnar í fjölskylduljósmyndum. Erindið er unnið upp úr mastersritgerð Guðrúnar Svövu sem hún skrifaði í mannfræðinámi sínu við félagsvísindadeild Háskóla Íslands.
Í stuttu máli fjallar verkefnið um birtingarmynd náttúrunnar í fjölskylduljósmyndum og hún borin saman við þá staðalmynd sem dregin hefur verið upp af landi og þjóð til landkynningar. Beint er sjónum að því hvernig náttúran hefur verið gerð miðlæg en fólkið fjarverandi í staðalmyndum. Áhersla er á hvernig fólkið sjálft upplifir og myndar náttúruna og túlkar í persónulegum myndum sínum. Tilgangur verkefnisins er að varpa fram og skoða mismunandi birtingarmynd náttúrunnar í ljósmyndum. Verkefnið er einnig ádeila á umræðu íslenskra fræðimanna, hvernig hún hefur einskorðast við staðalmyndasköpun og með því fest ríkjandi staðalmynd enn frekar í sessi. Með henni hafa þeir tekið þátt í sköpun staðalmynda og sniðgengið sýn fólks á umhverfi sitt.
Guðrún Svava er mannfræðingur að mennt. Lauk hún MA gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2010 og BA gráðu í mannfræði frá sama skóla árið 2003. Að auki hefur hún diplómu í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands.
Vísindaportið sem er öllum opið er haldið í kaffistofu Háskólasetursins og hefst það klukkan 12:10.