fimmtudagur 6. febrúar 2014

Atvinnumál kvenna

Gestur í Vísindaporti föstudaginn 7. febrúar er Ásdís Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri hjá Vinnumálastofnun um atvinnumál kvenna. Hún mun í erindi sínu kynna styrkjamöguleika til atvinnusköpunar kvenna og lánatryggingasjóðinn Svanna.

Vert er að geta að nú er opið fyrir umsóknir um styrki til atvinnumála kvenna. Skilyrði til umsóknar er að:

- verkefnið sé í eigu konu/kvenna og stjórnað af konu,

- verkefnið feli í sér nýnæmi eða nýsköpun,

- verkefnið feli í sér atvinnusköpun til frambúðar,

- viðskiptahugmynd sé vel útfærð.

Veittir eru styrkir til gerðar viðskiptaáætlunar, vegna markaðssetningar og gerðar markaðsáætlunar, þróunar vöru eða þjónustu, hönnunar og efniskostnaðar. Ennfremur geta konur sem hafa fullmótaða viðskiptaáætlun og hafa hug á því að stofna fyrirtæki á næstunni eða hafa stofnað fyrirtæki en ekki hafið rekstur, sótt um styrk til að koma henni í framkvæmd.

Vísindaportið hefst að venju klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs og er öllum opið.