mánudagur 16. júlí 2012

Árleg heimsókn íslensku-vettvangsskólans frá Manitoba

Hópur nemenda á vegum Íslenskudeildar Manitoba-háskóla í Kanada er mættur í Háskólasetrið og er þetta árviss viðburður því þessi hópur er sá sjötti í röðinni sem heimsækir okkur. Umsjónarmenn og kennarar hópsins eru sem fyrr þau Dr. Birna Bjarnadóttir, forstöðumaður íslenskudeildarinnar og Peter John Buchan. Íslenskudeildin er sú eina sinnar tegundar í Norður-Ameríku og fagnaði hún 60 ára afmæli s.l. ár. Í vetur hefur verið haldið upp á þennan viðburð með ýmsu móti.

 

Nemendurnir stunda nám í íslenskri samtíma- og miðaldamenningu. Dvöl þeirra hér á landi er mánaðarlangt vettvangsnámskeið um íslenska menningu sem er skipulagt í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða og Háskóla Íslands. Lögð er áhersla á samband menningarinnar við náttúru og umhverfi og er á dagskrá fyrirlestrar, heimsóknir á söfn, skoðunarferðir og heimsóknir rithöfunda sem lesa upp úr verkum sínum og fleira. Hér vestra er boðið upp á dagskrá um Gísla Sögu Súrssonar þar sem sagan er lesin, siglt er í Geirþjófsfjörð, gengið með leiðsögn um söguslóðirnar og boðið upp á leiksýningu byggða á sögunni.

 

Eftir tveggja vikna dvöl á Vestfjörðum heldur hópurinn svo norður í land á leið í hringferð um landið. Vonumst við svo til að sjá Birnu og Peter John ásamt nýjum hópi að ári.


Hópurinn frá Manitoba-háskóla að hlýða á fyrirlestur og njóta veðurblíðunnar í porti Háskólaseturs.
Hópurinn frá Manitoba-háskóla að hlýða á fyrirlestur og njóta veðurblíðunnar í porti Háskólaseturs.