Árleg heimsókn íslensku-vettvangsskólans frá Manitoba
Nemendurnir stunda nám í íslenskri samtíma- og miðaldamenningu. Dvöl þeirra hér á landi er mánaðarlangt vettvangsnámskeið um íslenska menningu sem er skipulagt í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða og Háskóla Íslands. Lögð er áhersla á samband menningarinnar við náttúru og umhverfi og er á dagskrá fyrirlestrar, heimsóknir á söfn, skoðunarferðir og heimsóknir rithöfunda sem lesa upp úr verkum sínum og fleira. Hér vestra er boðið upp á dagskrá um Gísla Sögu Súrssonar þar sem sagan er lesin, siglt er í Geirþjófsfjörð, gengið með leiðsögn um söguslóðirnar og boðið upp á leiksýningu byggða á sögunni.
Eftir tveggja vikna dvöl á Vestfjörðum heldur hópurinn svo norður í land á leið í hringferð um landið. Vonumst við svo til að sjá Birnu og Peter John ásamt nýjum hópi að ári.