miðvikudagur 18. febrúar 2015

Andófs raddir í Srí Lönku í Vísindaporti

Það gerist ekki oft að íbúi Ísafjarðarbæjar ver doktorsritgerð sína, en það gerði Auri Aurangasri Hinriksson í nóvember við Háskóla Íslands. Titil doktorsritgerðar hennar er "Andófs raddir: Skáldsögur á ensku um félags- og menningarlegar umbyltingar í sjálfstæðu Sri Lanka", eða á ensku: Dissident Voices: Sociocultural Transformations in Sri Lankan Post-Independence Novels in English.

Föstudaginn, 20.02.2015 kemur Auri Aurangasri Hinriksson í Vísindaportið.

Viðfangsefni ritgerðarinnar er greining frá sjónarhóli eftirlendufræða á fjórtán skáldsögum sem komu út á ensku á árunum 1978-2005 um heiftug átökin sem fylgdu í kjölfar sjálfstæðis Sri Lanka: uppreisnir á árunum 1971 og 1987–1989 og þrjátíu ára stríð milli Sinhala og Tamíla. Skáldsögur um þetta efni hafa ekki verið rannsakaðar áður í svo víðtæku samhengi.

Aðal markmið ritgerðarinnar er að rannsaka hvernig þessar skáldsögur lýsa vandamálum sem fylgdu í kjölfar nýlendureksturs Breta, sem raskaði félagslegum og menningarlegum aðstæðum þannig að mikil óleyst spenna ríkti meðal þjóðfélagshópa og þjóðarbrota eftir að Sri Lanka fékk sjálfstæði. Á endanum var gerð uppreisn í suðri og þjóðarbrot tókust á í norðri.

Helstu niðurstöður þessarar rannsóknar eru að enskar skáldsögur skrifaðar í Sri Lanka á tímabilinu 1948-2012 sýni glögglega hvernig nýlendurekstur Breta, og aðferð þeirra við að deila og drottna, raskaði innbyrðis valddreifingu og skildi eftir óleyst félags- og menningarleg vandamál sem blossuðu upp af heift þegar heimamenn fengu völdin. Flest skáldverkin sýna átökin á gagnrýninn og oft óvæginn hátt, en beita sér ekki að sama skapi í uppgjöri við breska nýlendutímann; val á tungumáli hefur verið sérstök menningarpólitísk átakamiðja í Sri Lanka en skáldsögurnar sýna sterka viðleitni í átt til sátta og friðar.

 

Árný Aurangasri Hinriksson ólst upp í Colombo á Sri Lanka og stundaði þar grunn- og framhaldsskólanám. Eftir skólagöngu tók hún við að læra tónlist, japönsku, þýsku og spænsku. Hún starfaði í þróunardeild Sameinuðu þjóðanna og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna í tíu ár. Vegna vinnu hennar og eiginmanns hennar hjá Sameinuðu þjóðunum, og Danida og Norad stofnununum, bjó Árný í nokkur ár í ýmsum löndum en til langs tíma í Barein, Íran og Indlandi.

Hún stundaði háskólanám við University of Andhra Pradesh, og lauk Diploma í Telugu 1982. Árný flutti til Íslands 1983 og frá Háskóla Íslands lauk hún BA-gráðu í Ensku 2004 og MA-gráðu í Ensku 2007.

Hún fékk kennaraleyfi frá Kennaraháskóla Íslands 2005 til að kenna ensku bæði í grunnskólum og í framhaldsskólum. Árný Aurangasri Hinriksson hefur lagt stund á enskukennslu um árabil, við Patreksskóla á Patreksfirði, Varmárskóla í Mosfellsbæ, Klébergsskóla í Reykjavík og við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu á Höfn.

Eiginmaður Árnýjar er Þórir Guðmundur Hinriksson, fyrrum starfsmaður Sameinuðu þjóðanna sem sérfræðingur í sjávarútvegsfræðum. Sonur þeirra er Neil Shiran Kanishka Þórisson, viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.

 

Vísindaport er öllum opið og hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs. Léttar veitingar. Erindið mun fara fram á ensku.


Föstudaginn, 20.02.2015 kemur Auri Aurangasri Hinriksson í Vísindaportið.
Föstudaginn, 20.02.2015 kemur Auri Aurangasri Hinriksson í Vísindaportið.