fimmtudagur 13. janúar 2011

Allir vinna (saman) - Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar 2008 - 2020

Á Alþjóðlega skipulagsdeginum, þann 8. nóvember síðastliðinn, hlaut Ísafjarðarbær Skipulagsverðlaunin 2010 fyrir Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar 2008 - 2020. Teiknistofan Eik var ráðgjafi Ísafjarðarbæjar í verkefninu. Skipulagsverðlaunin eru veitt á tveggja ára fresti fyrir framlag til skipulagsmála sem hefur á einhvern hátt aukið umræðu og skilning á skipulagsmálum. Í Vísindaporti föstudaginn 14. janúar mun Gunnar Páll Eydal, umhverfisfræðingur hjá Teiknistofunni Eik, fjalla um verklagið sem lá til grundvallar Aðalskipulaginu og ávinning þess. En það er einmitt á grunndvelli þess sem Skipulagsverðlaunin voru veitt að þessu sinni.

Í umsögn dómnefndar Skipulagsverðlaunanna segir: „Verðlaunin eru fyrst og fremst tileinkuð þeim þætti skipulagsins er lýtur að verklagi, þar sem samráð við íbúa og hagsmunaaðila var mun víðtækara en gerð er krafa um í lögum og reglugerðum [...] Víðtæk þátttaka almennings í skipulagsferlinu ber vott um jákvæða þróun lýðræðis. Ennfremur tryggir hún almenna sátt um niðurstöður skipulagvinnunnar sem er til gagns fyrir hlutaðeigandi sveitarfélag og íbúa þess og stuðlar að jákvæðni og bjartsýni. Vinna sem þessi skapar fordæmi sem önnur sveitarfélög geta litið til."

Líkt og fyrr hefst Vísindaportið kl. 12.10 í kaffisal Háskólaseturs og er opið öllum.

 Teikning úr verðlaunuðu Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008 - 2020.
Teikning úr verðlaunuðu Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008 - 2020.