fimmtudagur 9. febrúar 2012

Áhrif hitastigs á þorskseiði

Áhrif hitastigs á þorskseiði verður viðfangsefni Dr. Guðbjargar Ástu Ólafsdóttur í Vísindaporti föstudagsins. Þar mun hún segja frá nýbirtri rannsókn á áhrifum hitastigs á fæðunám, félagsatferli og árásargirni þorsksseiða nálægt útjaðri náttúrulegs hitastigs, við 3°C og 13°C.
Niðurstöðurnar sýna að við 13°C er lítið svigrúm fyrir seiðin til að bregðast við breytingum í umhverfi, líklega vegna aukinnar virkni, þau þurfa stöðugt fæðunám til að viðhalda vexti auk þess sem aukin samkeppni og árásargirni valda streitu. Þar sem hitastig víða á grunnsævi við Ísland fer um og yfir 13°C auka þessar niðurstöður þekkingu og skilning á áhrifum hækkandi sjávarhita á villt þorskseiði við Ísland.
Sama rannsókn gaf vísbendingar um einstaklingsmun í hæfni til að bregðast sveigjanlega við hærra hitastigi. Þessi einstaklingsmunur, sem er að líkindum tilkominn vegna undirliggjandi einstaklingsbreytileika í efnaskiptum, gefur tilefni til að ætla að hækkandi sjávarhiti geti, vegna vals á seiðastigi, valdið breytingum á samsetningu þorskstofnsins.
Kynntar verða áframhaldandi rannsóknir hjá Rannsóknasetri HÍ á sama sviði.
Dr. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir er líffræðingur með þróunarvistfræði fiska að sérsviði. Hún hefur stundað fjölbreyttar rannsóknir á þessu sviði síðan hún hóf doktorsnám árið 2000. Guðbjörg hóf störf hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum í nóvember 2007 og hefur síðan þá byggt upp rannsóknaverkefni á þróunarvistfræði þorks.
Vísindaportið hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs og er öllum opið.