fimmtudagur 22. maí 2008

Æðri menntun í litlu landi

Í tengslum við aðalfund Háskólaseturs Vestfjarða föstudaginn 23. maí heldur Ingjaldur Hannibalsson, deildarforseti Viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands, opinn fyrirlestur um þróun háskóla og háskólasetra undir yfirskriftinni „Æðri menntun í litlu landi." Erindið er í grunninn hið sama og Ingjaldur mun flytja á alþjóðlegu ráðstefnunni Does size matter, sem verður við Háskóla Íslands í byrjun júní. Hvort stærð skipti máli þegar kemur að æðri menntun er mikilvæg spurning fyrir Háskólasetur Vestfjarða og Vestfirði yfirleitt. Það verður áhugavert að heyra sjónarmið Ingjalds í þessu samhengi, en hann hefur mikla reynslu af málefnum æðri menntastofnana og hefur tekið virkan þátt í umræðum um háskólasamfélagið, bæði hér heima og á alþjóðlegum vettvangi.

Ingjaldur Hannibalsson er prófessor við Viðskipta og hagfræðideild Háskóla Íslands og umsjónamaður MS náms í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum.

Fyrirlesturinn fer fram í stofu 1-2 í Háskólasetri kl. 13.30 og er öllum opinn á meðan húsrúm leyfir.