fimmtudagur 6. nóvember 2008

3X Technology á Ísafirði – hlutverk, hugmyndafræði og vöruþróun

Í Vísindaporti næstkomandi föstudag 7. nóvember, mun Jóhann Jónasson framkvæmdarstjóri 3X Technology á Ísafirði, kynna starfsemi fyrirtækisins. Í máli sínu mun Jóhann koma inn á hlutverk, sögu, hugmyndafræði og vöruþróun fyrirtækisins. Einnig mun Jóhann fjalla um þær nýjungar sem fyrirtækið kynnti ,og hlaut verðlaun fyrir, á Íslensku sjávarútvegssýningunni Icefish 2008, sem fram fór dagana 2.-4. október síðastliðinn.

 

Jóhann er fæddur á Ísafirði 1964 og er uppalinn í vélsmiðjunni Þór hjá föður sínum, en vélsmiðjan starfaði í meira en fimmtíu ár á Ísafirði. Þar sinnti Jóhann skipaþjónustu, sem sagt viðgerðum á vélbúnaði skipa þegar þau komu í land. Jóhann nam upphaflega rennismíði og lauk meistaraprófi í greininni, þá lá leiðin í Tækniskólann þaðan sem hann útskrifaðist árið 1994 sem iðnrekstrarfræðingur af tæknisviði. Að loknu námi sínu í Tækniskólanum stofnaði Jóhann 3X Technology á Ísafirði í félagi við tvo aðra. Síðastliðið vor lauk hann svo MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík.

 

Vísindaportið hefst að venju kl. 12.10 og fer fram í kaffisal Háskólaseturs Vestfjarða og eru allir velkomnir.