Prófundirbúningur
Við undirbúning fyrir próf er mikilvægt að vera í góðu formi, andlega og líkamlega. Rétt mataræði og hreyfing skiptir máli. Námsmaður þarf að kynna sér prófareglur í sínum háskóla og passa upp á að halda utan um skráningar í og úr prófum.
Fyrir hvert próf er gott að gera gátlista. Oft er hægt að sjá fyrir hvaða efni verður á prófinu og mikilvægt er að vera búin/n að fá upplýsingar frá kennaranum um hvaða námsefni á að leggja mesta áherslu á. Síðan er hægt að gera áætlun um upplestur, þ.e. skipuleggja hvað á að lesa og hvenær. Mjög gott er að setja upp tímatöflu þar sem tíminn er skipulagður út frá eigin þörfum, þ.e. hvaða tími er til umráða til að læra og hvernig er sá tími best nýttur. Svona skipulagning krefst ekki mikils tíma en getur hjálpað þeim mun meira og námsmaðurinn verður síður uppiskroppa með tíma þannig að ekki náist að fara yfir allt sem áætlað var. Markviss lestur alla önnina og regluleg ástundun náms eru bestu og skilvirkustu vinnubrögðin í námi og um leið besti prófundirbúningurinn.