Námstækni

Nemendur ættu að reyna að tileinka sér námstækni og öguð vinnubrögð í námi. Það er mjög stór hluti þess að læra, það að kunna að læra. Hægt er að kynna sér ýmsar aðferðir í námstækni og eins er hægt að leita ráða hjá námsráðgjöfum. Mikilvægt er að hver nemandi finni sína aðferð, þá aðferð sem gerir það auðveldast fyrir hann að læra. Hér verður örlítið tæpt á almennri námstækni þannig að nemendur geti reynt að tileinka sér algengustu námsaðferðirnar.

 

Mörgum finnst mjög mikilvægt að læra alltaf á sama staðnum. Þannig tengir undirmeðvitundin þennan atburð, að læra, við ákveðinn stað. Mikilvægt er að finna sér stað sem hentar vel til að læra, þar sem er sem minnst truflun.

 

Mikilvægt er að skipuleggja vel tímann sem til umráða er til að læra. Gott er að setja sér tímamörk, þannig að ekki sé lesið of lengi í einu. Hver og einn verður að finna sér sinn tíma, en ágætisviðmið er að lesa kannski í 45 mínútur og taka síðan hlé í 5-10 mínútur. Einnig er mikilvægt að velja vel tímann sem notaður er til að læra, þ.e. að velja þann tíma dagsins sem viðkomandi er best upplagður. Þar sem það getur verið erfitt í fjarnámi, sérstaklega þegar fólk vinnur með náminu, þá er mikilvægt að skipuleggja tíma sinn vel þannig að ekki sé alltaf verið að læra seint á kvöldin eða nóttunni þegar viðkomandi er dauðþreyttur.