Glósutækni

Margar aðferðir eru til við glósuskrif og verður fólk að finna sér þá aðferð sem virkar best fyrir sig. Ein aðferðin er kölluð PQ5R (Prepare, Questions, Write, Reduce, Recite, Reflect, Review). Hægt er svo að aðlaga þessa aðferð að þörfum hvers og eins hverju sinni, t.d. fækka r-um.

Prepare,
undirbúa. Ef nemandi er undibúinn fyrir hvern tíma og búinn að fara yfir það efni sem á að fjalla um auðveldar það honum að koma auga á aðalatriðin á meðan á kennslustundinni stendur.

Question,
að spyrja. Til að hafa allt á hreinu varðandi námsefnið er mikilvægt að spyrja spurninga í kennslustundum um það sem námsmanninum finnst þurfa frekari útskýringar eða svör. Ekki á hika við að spyrja þó um sé að ræða atriði sem virðast vera augljós. Ef einn nemandi er að velta því fyrir sér eru örugglega einhverjir aðrir að því líka sem geta þá einnig nýtt sér svörin við spurningunum.

Write,
að skrifa. Það er mikilvægt að glósa vel í tímum. Gott er að koma sér upp sínu eigin kerfi með styttingum og ýmsum skammstöfunum sem maður þekkir þannig að maður nýti tímann í kennslustundinni sem best. Það getur gefið góða raun að fylgjast vel með því hvernig kennarinn leggur áherslu á efnið. Kennarinn endurtekur kannski eitthvað atriði eða notar einhver áhersluorð til að vekja athygli á ákveðnu atriði, þá má gefa sér að hér sé um mikilvægt atriði að ræða sem þarf að leggja áherslu á.

Reflect,
að íhuga. Mikilvægt er að skoða glósurnar strax að tíma loknum. Ef farið er mjög fljótlega aftur yfir glósurnar eða efni tímans eru meiri líkur á að það festist í minninu. Því fyrr sem farið er yfir glósurnar því betra.

Review,
að skoða. Hér er átt við að skoða glósurnar aftur, t.d. að 24 tímum liðnum. Nánast sama og í íhugunarferlinu en gert aðeins seinna og er ætlað til þess að festa efnið enn betur í minninu. Einnig er gott hér að fara yfir glósurnar, athuga hvort þær séu dagsettar, hvort þær séu merktar réttri fræðigrein eða kennara og jafnvel merkja við með áherslupenna eða áherslulímmiðum ef það eru einhver atriði sem þarf sérstaklega að draga út. Síðan er mjög gott að lesa glósurnar yfir reglulega á önninni og svo að lokum fyrir próf. Þetta er mjög mikilvægt því að sífelld endurskoðun á efninu verður til þess að það festist ennþá betur í minninu og skilningurinn eykst í hvert sinn sem lesið er yfir.