Sókn sjávarbyggða. Kemur framtíðin? Koma konurnar?

Byggðaráðstefna Íslands 2014 19.-20. september, Patreksfirði

Staða og þróun byggðar um allt land hefur margvíslega hagnýta og fræðilega skírskotun til málaflokka á borð við atvinnusköpunar, auðlindanýtingar, jafnréttis kynjanna, menningar, menntunar, opinberrar þjónustu, samgangna og skipulagsmála. Þeir sem vinna að stefnumótun, rannsóknum og starfi á vettvangi hafa sértæka og oft mismunandi sýn á orsakir og afleiðingar breytinga í byggðamálum.

Byggðaráðstefnu Íslands er ætlað að vera vettvangur nýrra rannsókna, reynslu af hagnýtu starfi og umræðu um stefnumótun í sjórnsýslu og stjórnmálum. Ráðstefnan er haldin á landsbyggð til að veita þátttakendum innsýn í lífskjör heimamanna og þær áskoranir og þau tækifæri sem þeir standa frammi fyrir.

Að þessari Byggðaráðstefnu Íslands standa Byggðastofnun, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Háskólasetur Vestfjarða og Vesturbyggð.

Þema ráðstefnunnar 2014

Sókn sjávarbyggða: Kemur framtíðin? Koma konurnar?

Sjávarbyggðir eru ungt fyrirbæri í Íslandssögunni. Þær hafa vaxið hratt frá byrjun 20. aldar í kringum veiðar og vinnslu og vegna nálægðar við fiskimiðin, en margar eiga nú, hundrað árum seinna, í vök að verjast.

Hver er framtíð þeirra?

Að mörgu leyti merkjum við í dag breytingar í sjávarbyggðum. Sumar verða svefnbæir, aðrar byggjast upp með ferðamennsku, með nýrri stóriðju eða í kring um fiskeldi. Á stöku stað koma fram sprota-fyrirtæki. Aðrar virðast að fölna.

Í alþjóðlegum rannsóknum hefur margoft komið fram að konur eru fyrstar til að flytja frá jaðarsvæðum. Eins og er virðist vera erfiðast að sannfæra konur um að flytja í sjávarbyggðir þrátt fyrir nýja sókn og uppgang á ýmsum stöðum. Ef svo er, hvaða ástæður liggja þar að baki ? Er hægt að hafa áhrif á þessar ástæður? Er það ímyndarvandamál sem sjávarbyggðir glíma við?

Skipulag ráðstefnunnar
Á dagskrá eru 25 áhugaverð erindi frá fræðimönnum, stefnumótendum og þeim sem vinna á vettvangi um stöðu og þróun byggðar almennt og sérstaklega um þemað Sókn Sjávarbyggða: Kemur framtíðin? Koma konurnar?