Ferðin til Patreksfjarðar

Ljósmynd: Andreas Peters.
Ljósmynd: Andreas Peters.

Ráðstefnan er haldin á Patreksfirði til að veita þátttakendum innsýn í lífið á staðnum. Það eitt að komast á staðinn er hlutur af því að fá innsýn í lífskjör íbúanna og upplifa fjarlægðir af eigin raun. Þátttakendur munu upplifa stórbrotnar framfarir en líka það sem enn er ógert. Margra ára niðursveifla sem og uppgangur og vöxtur á allra síðustu árum mun ekki leyna sér. Hluti ráðstefnunnar er helgaður því að upplifa menningarlíf og atvinnulíf á sunnanverðum Vestfjörðum.


Á vetrarmánuðum geta sunnanverðir Vestfirðir verið eyland sem aðeins er aðgegnilegt með ferju. September er þó iðulega góður ferðamánuður og allir vegir vanalega opnir. Upplýsingar um færð og veður á heimasíðu Vegagerðarinnar: www.vegagerdin.is


Ferðin frá Reykjavík/að sunnan liggur um Barðaströnd og er nokkuð nákvæmlega 400 km.
Einnig er hægt að taka ferjuna Baldur frá Stykkishólmi að Brjánslæk: www.saeferdir.is. Skv. áætlun er ein ferð á dag og er farið kl. 15:00 frá Stykkishólmi. Engin ferja er á laugardögum.
Flug frá Reykjavík er með flugfélaginu Erni til Bíldudals: www.ernir.is Flugáætlun haustsins er enn ekki á netinu, en nú í vetur er flogið á Bíldudal alla daga nema laugardaga um hádegi. Flugtími er um 40 mínútur, en vélin tekur takmarkaðan fjölda farþega. Flugrúta er frá Bíldudal til Patreksfjarðar.


Ferðin frá Akureyri/Norðurlandi er styst um Laxárdalsheiði og Búðardal og eru nú eingöngu 78 km ómalbikaðir af samtals um 520 km.


Frá Ísfirði eru aðeins 173 km, nema ef heiðar séu lokaðar þá liggur vegurinn um Hólmavík og Þröskulda og er sú vegalengd 450 km.


Fjöldi áningastaða er á leiðinni, en engin þjónusta er milli Bjarkarlundar og Flókalundar. Vert er t.d. að stoppa í Þorskafirði og virða fyrir sér hinn landsfræga Teigsskóg á miðri leiðinni.


Mæting í kvöldkaffi á Patreksfirði fimmtudagskvöldið18.09.2014 er upp úr kl. 20:00. Staðsetning tilkynnt síðar.